Ölvunarakstur er dýrt spaug

Sýndu skynsemi

Ráð #4 … til umhugsunar:

Ef þú átt þátt í umferðarslysi og það mælist áfengi í blóðinu áttu það á hættu að tryggingarfélagið geri þig ábyrgan fyrir öllu tjóni sem af hegðun þinni hlýst – jafnvel þótt mælanlegt magn áfengis sé mjög lítið. Þetta getur gerst jafnvel þótt þú hafir ekki valdið slysinu.

Fyrir utan þann mannlega harmleik sem felst í hverju dauðsfalli eða alvarlegu óhappi hafa umferðarslys í för með sér mikinn samfélagslegan kostnað. Rannsóknir sýna að kostnaðurinn við hvert banaslys í umferðinni getur numið hundruðum milljóna króna og alvarlegt slys tugum milljóna (Sjá til dæmis þessar heimildir: 1. Kostnaður við umferðarslys á Íslandi árið 2009. Hagfræðistofnun Háskóla Íslands. Skýrsla nr. C12:04, desember 2012. 2. Kostnaður umferðarslysa. Haraldur Sigþórsson og Vilhjálmur Hilmarsson. Rannsóknarverkefni við Háskólann í Reykjavík, maí 2014.)

Samkvæmt umferðarlögum má enginn aka undir áhrifum áfengis eða vímuefna. Ef ökumaður mælist með vínandamagn í blóði (jafnvel undir 0,20 prómillum) er hann að brjóta lög.
Ef vínandamagn í blóði ökumanns nemur 0,20‰, en er minna en 1,20‰, eða magn vínanda í lofti sem hann andar frá sér nemur 0,1 milligrammi í lítra lofts, en er minna en 0,60 milligrömm, eða ökumaður er undir áhrifum áfengis þótt magn vínanda í blóði hans eða útöndun sé minna telst hann ekki geta stjórnað ökutæki örugglega.
Ef magn vínanda í blóði ökumanns nemur 1,20‰ eða meira eða vínandamagn í lofti sem hann andar frá sér nemur 0,60 milligrömmum í lítra lofts eða meira telst hann óhæfur til að stjórna ökutæki.

Nánari upplýsingar um viðurlög við ölvunarakstri má sjá í reglugerð um sektir og önnur viðurlög vegna brota á umferðarlögum (45 grein).

Hér má finna sektarreikni hjá Samgöngustofu.