Drukkinn ökumaður ofmetur færni sína

Vertu vinur í raun

Ráð #5 … til umhugsunar:

Áfengisneysla, jafnvel þótt lítil sé, skerðir hæfileika manna til aksturs. Viðbrögð verða hægari, skynjun brenglast og ákvarðanir vímuáhrif draga úr dómgreind, þ.e. hæfninni til þess að draga ályktanir og hugsa rökrétt. Vegna þessara áhrifa vímunnar á dómgreind og hömlur hættir ökumönnum til þess að ofmeta hæfni sína til þess að stjórna ökutæki og gera lítið úr áhættunni sem því fylgir að aka undir áhrifum.

Ölvuð manneskja á erfiðara með að sjá fótum sínum forráð en ódrukkin og getur orðið sjálfri sér og öðrum hættuleg. Vímuástand býður því margs konar hættum heim, til dæmis við akstur ökutækja.

Áfengi hefur mismunandi áhrif á einstaklinga. Kyn og líkamsgerð ökumanna skiptir til dæmis máli. Aðrir áhrifaþættir á ökuhæfni eru til dæmis syfja og almenna þreyta ökumanns, sem og hvenær hann neytti síðast matar eða áfengis. Magn áfengis í blóði einskorðast því ekki aðeins við fjölda þeirra drykkja sem ökumaður neytir heldur er slíkt mat mjög aðstæðu- og persónubundið.

Því miður taka margir ökumenn reglulega þá áhættu að halda út í umferð eftir áfengisneyslu, ómeðvitaðir um raunveruleg áhrif áfengis á aksturshæfni þeirra. Ekki bætir úr skák að samkvæmt íslenskum lögum er heimilt að vera með áfengi í blóði upp að 0,2 prómillum. Það opnar enn frekar á möguleikann á að fólk taki áhættu og telji sér trú um að það sé undir lágmarki og því sé allt í lagi.

Útreikningar um öryggismörk geta orðið mjög varasamir og blekkjandi. Þess vegna er best að hafa línurnar skýrar: Að drekka aldrei áfengi sé ætlunin að aka ökutæki.