Áfengi er ein af þremur algengasta orsökum banaslysa í umferðinni

Hugsaðu um þig og þína

Ráð #2 … til umhugsunar:

Akstur undir áhrifum áfengis eða annarra vímuefna er ein af þremur algengustu orsökum banaslysa í umferðinni. Auk þess verða margir fyrir alvarlegu heilsutjóni, jafnvel ævarandi örorku, vegna ölvunaraksturs.

48% af öllum banaslysum í umferðinni 2004-2008 má rekja til ölvunar og 28% af öllum umferðarslysum.

Rannsóknir benda til þess að jafnvel minnsta neysla áfengis dragi úr viðbragðsflýti og skerði dómgreind og að varasamt sé að setjast undir stýri þótt fólk hafi aðeins drukkið lítið magn af áfengi.

Í skýrslu frá 2006, sem gefin er út á vegum Evrópusambandsins og varðar áfengisneyslu í Evrópu (Alcohol in Europe), kemur fram að rannsóknir á ökuhæfni ökumanna sem hafa neytt áfengis sýna flestar fram á að 0,5 prómill áfengis í blóði hafi veruleg áhrif á aksturshæfni ökumanna og auki líkindi á slysum. Þegar ökumaður er undir áhrifum áfengis stórskerðist viðbragðsgeta hans. Ökumaður, sem er með 0,5 prómill áfengismagn í blóði sínu, er almennt 150 sinnum líklegri til að lenda í banaslysi en ef hann væri allsgáður og er um 30 sinnum líklegri til að verða fyrir alvarlegu líkamstjóni. 

Erlendar rannsóknir hafa sýnt fram á að marktækur munur er á hæfni þeirra ökumanna sem hafa 0,2 prómill áfengismagn í blóði og þeirra sem ekki hafa neytt áfengis. Þeir sem neytt höfðu áfengis, þótt í litlum mæli væri, gerðu fleiri mistök við prófanir. Fyrir hver 0,2 prómill sem áfengi eykst í blóði ökumanns tvöfaldast slysahættan. Rannsóknir hafa sýnt fram á að mjög lítið magn áfengis í blóði truflar samhæfðar sjálfvirkar hreyfingar líkamans og dregur úr almennri aksturshæfni til muna.

Við berum öll ábyrgð á okkur sjálfum sem ökumönnum og hegðun okkar í umferðinni. Þess vegna skulum við sameinast um það markmið að skila okkur og okkar nánustu heilum heim að loknum sumarleyfum og hátíðum sumarsins.

Við beinum eftirfarandi ábendingum til ökumanna:

Höfum fyrir ófrávíkjanlega reglu að aka aldrei undir áhrifum áfengis eða annarra vímuefna.
Geymum bílinn heima, fáum far með einhverjum sem er allsgáður eða tökum leigubíl.
Setjumst aldrei í bíl með drukknum bílstjóra.-Tilkynnum ölvunarakstur til lögreglu.

Foreldrar eru mikilvægar fyrirmyndir og í lykilstöðu í að fræða börn sín um notkun ávana- og vímuefna og afleiðingar af neyslu þeirra. Viðhorf og hegðun foreldra hafa einnig mikil áhrif á ávana- og vímuefnaneyslu barna. Að aka undir áhrifum áfengis eða annarra vímuefna eða láta slíkt óátalið er fordæmisgefandi fyrir börnin. Með því eru foreldrar í raun að lýsa því yfir að ekkert sé athugavert við að aka ölvaður. Það er gott að hafa í huga að það sem við gerum vegur þyngra sem fordæmi en það sem við segjum.