Áfengi er lengi að fara úr líkamanum

Gefðu þér tíma

Ráð #3 … til umhugsunar:

Ökumenn þurfa að vita að ekkert flýtir fyrir því að ná áfengismagni úr blóði, hvorki svefn, vatns- eða kaffidrykkja. Það eina sem dugar er að gefa líkamanum tíma til þess að losa sig við áfengið.

Ýmsir þættir hafa áhrif á hversu lengi vínandi er að hverfa úr blóðinu svo sem magn þess áfengis sem innbyrt er og líkamsbygging viðkomandi. Þess vegna er ekki hægt að setja algild tímamörk. Lifrin minnkar vínandann í blóðinu um 0,15 prómill á klukkustund og meðan á því stendur er best að hvílast vel. Ekki er hægt að flýta fyrir niðurbroti vínanda í blóði með neinum hætti en margir virðast halda að svo sé.

Kaffidrykkja, köld sturta, líkamsæfingar eða annað slíkt leiða ekki til þess að það renni hraðar af fólki. Enn fremur er bent á að þeir sem þjást af eftirköstum drykkju svo sem höfuðverki, sleni og þreytu eru ekki vel upplagðir til aksturs.

Ökumenn kunna að standa í rangri trú um að neysla takmarkaðs áfengismagns skerði ekki aksturshæfni eða að nægilega langur tími sé liðinn frá því að þeir neyttu áfengis. Með því er hættunni boðið heim og mikilvægt að hafa í huga að ökumenn geta ekki undir almennum kringumstæðum vitað hversu mikil áhrif neysla áfengis hefur á ökuhæfni þeirra hafi þeir á annað borð neytt þess.